Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, er án félags eftir að hann fékk samningi sínum við rússneska úrvalsdeildarfélagið Rostov rift á dögunum.
Ragnar, sem er 33 ára gamall, er uppalinn hjá Fylki í Árbænum en miðvörðurinn öflugi hefur verið atvinnumaður frá árinu 2007. Hann vonast til þess að framtíð sín skýrist fljótlega en ítrekar að hann ætli sér ekki að taka neina skyndiákvörðun um næsta áfangastað.
„Ég er búinn að vera í fríi núna sem hefur verið bæði gott fyrir mig og líka nauðsynlegt. Það er mikilvægt að hlaða batteríin öðru hverju og það er alltaf gott að koma heim til Íslands. Að sama skapi er alltaf óþægilegt þegar framtíðin er í smá óvissu en janúarglugginn verður opinn út mánuðinn og ég hef þess vegna ágætistíma til þess að ákveða næstu skref á ferlinum.“
Ragnar hefur leikið með Göteborg í Svíþjóð, FCK í Danmörku, Fulham á Englandi og loks Krasnodar, Rubin Kazan og Rostov í Rússlandi á atvinnumannsferli sínum og segist vera opinn fyrir því að prófa eitthvað nýtt.
Nenhum comentário:
Postar um comentário